Samfélagssjóður Fljótsdals stofnaður !

Fögur framtíð í Fljótsdal er samfélagsverkefni sem stofnað var til með samfélagsþingi síðastliðið vor. Eitt af áhersluverkefnum eftir það þing var að hvetja Fljótsdalshrepp til að stofna verkefnasjóð til stuðnings nýsköpunar, menningar og atvinnuskapandi verkefnum í Fljótsdal. Skipulagsskrá sjóðsins hefur nú verið staðfest og ber sjóðurinn nafnið Samfélagssjóður Fljótsdals. 

Fljótsdalur er einstakur. Landslag er fjölbreytt og stórbrotið með fögrum fossum á borð við Hengifoss, Strútsfoss og Kirkjufoss, klettabeltum og Tröllkonuhlaupi, viðurkenndu Ramsar votlendi á borð við Eyjabakka og austurgátt Vatnajökulþjóðgarðs. Blómlegt ræktarland og skógi vaxnar hlíðar einkenna líka dalinn sem gefa af sér einstakar afurðir; fóður, matvæli og byggingarefnivið. 

Helstu atvinnugreinar Fljótsdals eru ferðaþjónusta en tugþúsundir ferðamanna og útivistarfólks heimsækja dalinn á hverju ári. Ýmis fyrirtæki þjónusta ferðamanninn, s.s. Snæfellsstofa, Skriðuklaustur, Klausturkaffi, Hengifoss guesthouse, Óbyggðasetrið og Laugafell, svo einhver séu nefnd. Iðnaður skipar stóran sess en Fljótsdalsstöð Landsvirkjunar er einn fjölmennasti vinnustaðurinn í Fljótsdal. Sauðfjárrækt er megingrein landbúnaðar og búin eru töluvert mörg. Dilkakjötið er rómað fyrir einstakt villibragð en auk þess eru unnar afurðir úr sauðamjólk. Vel hefur líka verið tekið í afurðir úr skóginum og má finna húspanill, pallaefni og parket frá Fljótsdal í byggingum á Fljótsdalshéraði, höfuðborgarsvæðinu og víðar. 

Tækifæri til nýsköpunar og atvinnuskapandi verkefna byggja því að fjölþættum grunni. Með Samfélagsjóðnum opnast styrktækifæri, ekki bara fyrir Fljótsdælinga, heldur alla einstaklinga, fyrirtækja eða stofnanir sem vilja byggja upp og styðja við þá paradís sem Fljótsdalurinn er. Við fyrstu úthlutun sjóðsins verður allt að 12 milljónum króna veitt í styrki. Umsóknarfrestur rennur út á miðnætti þann 30. apríl 2020.

Allar nánari upplýsingar um Samfélagssjóð Fljótsdals má finna á heimasíðu Fljótsdalshrepps (fljotsdalur.is) en jafnframt er hægt að leita til verkefnastjóra Fagrar framtíðar í Fljótsdal, Ásdísar Helgu Bjarnadóttur hjá Austurbrú, á netfangið asdis@austurbru.is eða í síma 470 3800/470 3810.

Vefsíðan okkar notar kökur til að bæta þína upplifun af vefnum. Lesa má persónuverndarstefnu Fljótsdalshrepps með því að smella hér.