Ertu að flytja í Fljótsdalinn?

Frábært að heyra – komdu fagnandi!

Fljótsdalurinn er yndislegur. Hér er mikil náttúrufegurð og alþekkt veðursæld. Umhverfið býður upp á fjölbreytta möguleika í útivist, hvort sem er að sumri eða vetri. Hæfileg fjarlægð er í skarkala og iðandi verslanalíf. Innan 40 mín aksturs má finna atvinnu við allra hæfi. Auk þess sem fjölmörg tækifæri eru í dalnum til að skapa sína eigin atvinnu og nýta vinnuaðstöðu, s.s. í Végarði og Snæfellsstofu.

Komdu þér vel fyrir, nýttu hið fjölbreytta menningarlíf sem er í boði og taktu virkan þátt í samfélagsverkefnum með íbúum dalsins.

Njóttu líðandi stundar og þess að vera í okkar fallegu paradís.

Végarður

Í félagsheimilinu Végarði er skrifstofa sveitarfélagsins. Hún er að jafnaði opin alla virka daga frá kl. 9:00-16:00. Þar er ávallt tekið vel á móti fólki. Æskilegt er að láta vita af sér og fara yfir þarfir gagnvart þjónustu sveitarfélagsins, s.s. sorphirðu, þörf fyrir menntun eða félagsþjónustu, o.fl. Þar má jafnframt fá svör við þeim spurningum sem vakna við flutning í nýtt sveitarfélag.

Húsnæði

Viltu byggja? Hjá sveitarstjóra má fá allar upplýsingar um lausar byggingalóðir. Þær upplýsingar eru líka að jafnaði aðgengilegar hér á heimasíðunni undir Skipulags- og byggingamál.

Leigjendur. Leigumarkaðurinn er takmarkaður og spyrst fyrst og fremst á milli manna. Gott er því að spyrjast fyrir hjá íbúum dalsins. Nokkur fasteignafyrirtæki hafa tekið að sér að miðla upplýsingum um leiguhúsnæði. Einnig er húsnæði að jafnæði auglýst til kaups og leigu í Dagskránni. Fljótsdalshreppur hefur milligöngu um félagslegt húsnæði á svæðinu til handa einstaklingum sem hafa ekki kost á að afla sér húsnæðis með öðrum hætti og úthlutar einnig sérstökum húsnæðisstuðningi (tengill við samning).

Kaupendur. Nokkur fasteignasölufyrirtæki eru starfandi á Austurlandi. Úrval húsnæðis til sölu í Fljótsdal hefur ekki verið mikið en einhver hreyfing af og til. Húsnæðisverð hefur verið töluvert lægra en á höfuðborgarsvæðinu þó aðeins hafi það þokast upp á við.

Helstu fasteignasölur svæðisins:

Flutningstilkynning

Þegar flutt er í nýtt húsnæði ber að tilkynna flutning til Þjóðskrár Íslands innan sjö daga. Það er gert rafrænt í gegnum www.skra.is – undir flokknum Einstaklingar.

Mikilvægt er að muna að láta Póstinn vita um breytt heimilisfang því hann fær ekki sjálfvirkar tilkynningar um flutning frá Þjóðskrá.

Pósturinn - Ertu að flytja eða fara í frí?

Hiti og rafmagn

Fljótsdalur er kalt svæði. Heimamenn hafa því leitað leiða til að lækka rafmagnskostnaðinn með varmadælum og heimarafstöðvum. Einnig hafa þeir aukið nýtingu skógarafurða til kyndingar heimila og fyrirtækja. Neysluvatn kemur annars vegar frá vatnsbrunnum á eigin landareign eða vatnsveitu Skriðuklausturs.

Póstur og sími

Ljósleiðari er á nánast öll heimili í Fljótsdal. Síminn er með endurvarpa og því næst 3G og á sumum stöðu einnig 4G.

Póstinum er ekið annað hvern dag, eina vikunna hefst dreifing á mánudegi en þá næstu á þriðjudegi. Frímerkt bréf má setja í póstkassann sem pósturinn tekur þá með í næstu ferð til dreifingar. Einnig er hægt að panta póstbox á Egilsstöðum ef það hentar betur en allar nánari upplýsingar má fá á www.posturinn.is

Vistvernd

Á heimasíðunni eru upplýsingar um sorphirðu í sveitarfélaginu. Hvatt er til þess að flokka og skila í endurvinnslu eins og hægt er.

Við Snæfellsstofu og Végarð eru rafhleðslustöðvar og ein á hálendingu við Laugarfell. Tiltölulega stutt er á milli staða innan dalsins og því hvatt til þess að nýta vistvænan ferðamáta eins og hægt er.

Skólar og börn

Náin samvinna er við Múlaþing um skólagöngu barna og æskulýðsstarf.

Ungmennafélagið Þristar er öflugt og stendur félagið fyrir margvíslegri útivistartengdri afþreyingu fyrir börn og ungmenni.

Allar nánari upplýsingar um þjónustu við börn og ungmenni má fá á skrifstofu sveitarfélagsins.

Frítími

Útivist er eitt helsta áhugamál flestra sem búa og starfa í Fljótsdal. Gönguferðir auk þess sem hægt er að fara á ærslabelg og frispígolf á Hallormsstað. Fjallahjólabraut er á Hallormsstað og verið er að byggja upp nokkrar leiðir í Fljótsdalnum. Víða liggja áhugaverðar reiðleiðir ekki síst uppi á hálendinu.

Menning er í hávegum á Skriðuklaustri og á nokkurra vikna fresti eru listsýningar auk fastra sýninga í aðalsal. Þar má skoða fyrri tíð í sýndarveruleika og einnig skoða uppgröft gamla klaustursins sem þar stóð og klausturgarðinn. Leiksvæði er á milli Skriðuklausturs og Snæfellsstofu. Við Melarétt er bílastæði og hægt að skoða réttina sem og ganga upp með Bessastaðarárgili að Sunnevuhyl. Áhugavert sögusvæði er við Valþjófsstaðakirkju og þar er Valþjófsstaðahurðin frá 12. öld sem er einstakur dýrgripur.

Óbyggðasetrið býður fram áhugaverða afþreyingu og starfrækir Náttúruskóla fyrir börn og ungmenni. Ýmislegt fleira stendur til boð sem vert er að spyrjast fyrir um.

Ferðamálanefnd sveitarfélagsins sér um ýmsa viðburði, s.s. Fljótsdalsdaginn sem er að jafnaði í ágúst og kemur að afþreyingu í tengslum við réttardaginn í september.

Samfélagsverkefnið Fögur framtíð í Fljótsdal stendur fyrir ýmsum viðburðum í samstarfi við íbúa og hafa reglulegir dagskrárliðið verði undir hattinum Fimmtudagar í Fljótsdal. Íbúar hafa jafnframt tækifæri á að koma með hugmyndir sem og að standa fyrir uppákomum. Að jafnaði er þá komið saman í Végarði. Viðburðadagatal má finna á heimasíðunni.

Samgöngur

Upplýsingar um samgöngur má sjá á öðrum stað á heimasíðunni. Sjá hér.

Heilsugæsla

Allir íbúar hafa aðgang að Heilbrigðisstofnun Austurlands – HSA

Heilsugæsla er á Egilsstöðum á Lagarási 17-19. Hún er opin frá kl. 8:00-16:00 alla virka daga. Símaþjónusta er frá kl. 8:15-15:45. Sími: 470 3000 og netfang: heilsaeg at hsa.is

Sjúkrahús er á Neskaupstað, með fæðingardeild og skurðstofu.

Störf

Flest störf sem eru laus til umsókna eru auglýst á Austurland eða í Dagskránni. Jafnframt má sjá auglýsingar á Alfreð, StarfatorgiStörf.is og job.is

Verslun

Fljótsdælingar sækja nær alla verslun og þjónustu til Egilsstaða eða Fellabæjar. Þar eru matvöruverslanir og bakarí, aðföng landbúnaðar og byggingavöruverslun, fataverslanir og snyrtistofur og nær allt sem einn þarf að nálgast.

Gjafavöru- og minjagripaverslun er í Snæfellsstofu, Hengifoss Gistihús og á Skriðuklaustri, matvæli og matarhandverk í Klausturkaffi og Hengifoss Food Truck. Viðarafurðir s.s. panill, parket og pallaefni eru seldar hjá Skógarafurðum ehf.

 

We use cookies on our website. Some of them are essential for the operation of the site, while others help us to improve this site and the user experience (tracking cookies). You can decide for yourself whether you want to allow cookies or not. Please note that if you reject them, you may not be able to use all the functionalities of the site.

Ok