Útivist

Fljótsdalshreppur og austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs skartar fjölda náttúruperla og tækifæra til útivistar. Fjölmargar merktar gönguleiðir eru með mismunandi erfiðleikastuðli og ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Vinsælasti áfangastaður í sveitinni, og þótt víðar væri leitað, er án efa okkar glæsilegi Hengifoss. 

Hengifossárgil er með einstölum berglögum og stuðlum. Tveir gríðarlega fallegir fossar eru á leiðinni, annars vegar Stuðlabergsfoss (Litlanesfoss) sem umkringdur er einstaklega fallegu stuðlabergi og hins vegar Hengifoss sem er með hæðstu fossum á landinu um 128,5 m hár. Nokkuð brött gönguleið liggur upp með gilinu, en um tvo tíma má reikna með í göngu, fram og til baka. Hækkun um 300 m. Hægt er að ganga upp fyrir Hengifossinn, vaða á og ganga niður hinu megin. Fara þarf sérlega varlega yfir ánna því þar geta vatnavextir verið miklir.

Á vefsíðu Hengifoss má finna upplýsingar um fjölbreytta útivist á svæðinu. Einnig má nálgast upplýsingar hjá Snæfellsstofu um gönguleiðir innan Vatnajökulþjóðgarðs. Óbyggðasetur Íslands býður uppá fjölbreytta útivist og afþreyingu.

 

Til viðbótar við þá frábæru útivistarmöguleika sem finna má hér fyrir ofan eru:

Bessastaðaárgil er innan við Bessastaði og Eyrarland. Hægt er að ganga frá Melarétt með aðalveginum og yfir brúna. Þaðan er farið upp með gilinu að utanverðu. Stærsti fossinn í gilinu heitir Jónsfoss um 30 m á hæð nálægt miðju gilinu, en neðar eru Tófufoss og Litlifoss. Þar undir er Sunnevuhylur og sést í hann frá vegi. Litrík setlög eru í gilinu frá tertíertíma og surtarbrandsvottur með fornum gróðurleifum eins og í Hengifossárgilinu.  Gilið má einnig skoða frá hálendisveginum sem liggur að Snæfelli en á einum stað liggur vegurinn alveg fram að gilbarminum. Ef farið er upp með ánni að innanverðu er komið að litilli laut neðan við Tófufoss.

Hrakstrandarkofi er nýuppgerður gangnamannakofi á gönguleiðinni á milli Norður- og Suðurdals. Hægt er að ganga inn Norðurdal fram hjá Glúmsstaðaseli og inn að Hrakströnd og svo daginn eftir yfir í Þorgerðarstaðadal og fram Suðurdal. Bókanir í kofann fara fram hjá Óbyggðasetri Íslands. 

Víðivallaskógur er í landi Víðvalla Ytri I og II. Þar er skemmtilegt samkomusvæði sem hentar vel fyrir ýmiskonar viðburði. Nánari upplýsingar má fá hjá ábúendum á Víðivöllum, Bjarka Jónsson í síma 698-6237 eða Kristínu Gunnarsdóttur í síma 690-1276.

Tröllkonustígur heitir gönguleið á milli Skriðuklausturs og Végarðs í Fljótsdal sem liggur m.a. eftir berggangi er skásker Valþjófsstaðafjall. Þjóðsagan segir gatan í fjallinu sé tilkomin vegna ferðalaga tröllskessu forðum daga. Gönguleiðin er stikuð og liggur um skóg ofan við Snæfellsstofu og út að Bessastaðaárgljúfri. Vegalengd: 5 km

Sjá umfjöllun á N4

We use cookies on our website. Some of them are essential for the operation of the site, while others help us to improve this site and the user experience (tracking cookies). You can decide for yourself whether you want to allow cookies or not. Please note that if you reject them, you may not be able to use all the functionalities of the site.

Ok