Frá fljóti til fjalla

Tilkynningar & fréttir

Fögur framtíð í Fljótsdal- samfélagsþing og hvað svo ?

Á tveggja daga samfélagsþingi í Fljótsdal í apríl síðastliðnum, komu fram hugmyndir að fjölmörgum verkefnum og aðgerðum til að efla byggð og samfélag, svo megi verða „Fögur framtíð í Fljótsdal“. Þetta er einmitt heitið sem samfélagsverkefni því sem Fljótsdalshreppur stendur fyrir, í samstarfi við Austurbrú, var gefið á þinginu.

Nú liggur fyrir samantekt hér um skilaboð samfélagsþingsins, unnin af Sigurborgu Kr. Hannesdóttur hjá ILDI, en hún stýrði þinginu. Hún hefur sérstaklega hrósað þátttakendum á þinginu fyrir góða og vandaða vinnu og segir að miðað við sambærileg þing sem hún hefur stýrt annars staðar á landinu undanfarin ár, hafi  aldrei legið svo mikið efni fyrir!

Í lok þingsins var rætt um hvernig ætti að fylgja því eftir. Sögðu þátttakendur mikilvægast að hrinda verkefnum og hugmyndum í framkvæmd og að engin ástæða væri til þess að bíða, því margar hugmyndanna séu framkvæmanlegar strax. Töldu þó að fyrst þyrfti samfélagsnefndin að fara yfir og þétta verkefnin, því víða sé skörun í hugmyndunum.

Nú hafa samfélagsnefnd og aðal- og varamenn í sveitarstjórn fundað um samantektina og ákveðið að byrjað verði á að gera verkefnisáætlun og grófa kostnaðargreiningu. Samfélagsnefnd mun leiða þá vinnu og leggja síðan fyrir sveitarstjórn.

Ákveðið var að verkefnið Fögur framtíð í Fljótsdal standi til ársloka 2022, en áður hafði einungis verið ákveðið að það stæði til loka þessa árs. Stefnt er að ráðningu verkefnisstjóra, en ákvörðun um starfshlutfall verður tekin þegar verkefnisáætlun liggur fyrir. Það verður hugsanlega gert í samstarfi við stofnun eða fyrirtæki og er stefnt að því að verkefnisstjóri komi til starfa næsta haust, eða í síðasta lagi um áramót 2019/2020.

Verkefnið byggir á samstarfi sveitarfélagsins, Austurbrúar og síðast en ekki síst íbúa. Stefnt er að því að setja af stað vinnuhópa og m.a. horft til þess hverjir lýstu áhuga á að fylgja hvaða hugmyndum eftir, með því að skrá nöfn sín við einstök málefni á þinginu. Útfærslan mun skýrast þegar líður að hausti. Hins vegar er öllum frjálst að eiga frumkvæði að því að hóa saman áhugasömum um hin ýmsu málefni, án aðkomu sveitarstjórnar eða samfélagsnefndar, ef fólk vill. Þá eru áhugasamir hvattir til að skrá sig á póstlista verkefnisins, með því að senda tölvupóst til oddvita, fljotdalshreppur@fljotsdalur.is – þ.e. hafi þeir ekki þegar skráð sig á póstlistann sem lá frammi á samfélagsþinginu.

Á þinginu kom fram áhugi á að halda samtalinu áfram og er stefnt að því að halda samfélagsþing í byrjun hvers árs, meðan verkefnið stendur.

Með því að gefa verkefninu lengri tíma, vinna verkefnisáætlun til að forgangsraða hugmyndum, tryggja fjármögnun, ráða verkefnisstjóra og halda áfram samtali við íbúa, eru sköpuð framúrskarandi skilyrði til að ná góðum árangri, svo megi verða fögur framtíð í Fljótsdal.

Lesa meira

Laus er til umsóknar staða varaslökkviliðsstjóra Brunavarna á Austurlandi

Brunavarnir á Austurlandi er samlag 6 sveitarfélaga um þjálfun og menntun slökkvilismanna. Starfsvæðið nær til Vopnafjarðar, Borgarfjarðar eystra, Seyðisfjarðar, Djúpavogs, Fljótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps. Varaslökviliðsstjóri er staðgengill slökkviliðsstjóra og ber ábyrgð á faglegri starfsemi Brunavarna á Austurlandi í samvinnu við slökkviliðsstjóra. Hefur umsjón með og tekur þátt í þjálfun slökkviliða á starfssvæði Brunavarna á Austurlandi. Sinnir eldvarnaeftirliti, úttektum og yfirferð uppdrátta í samvinnu við slökkviliðsstjóra. Sinnir ýmsum verkefnum sem tengjast fræðslu og ráðgjöf til stofnana, fyrirtækja og einstaklinga. Menntunar- og hæfniskröfur - Umsækjendur skulu uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 792/2001 um menntun, réttindi og skyldur slökkviliðsmanna og laga nr. 75/2000 um brunavarnir. - Vera með löggildingu sem slökkviliðsmaður og hafa starfað a.m.k. í eitt ár í slökkviliði sem löggiltur slökkviliðsmaður - Hafa aukin ökuréttindi - Hafa leiðtoga- og stjórnunarhæfni, auk skipulagshæfni, sveigjanleika og vilja til að tileinka sér nýjungar. Umsækjendur þurfa að geta starfað undir álagi. - Góð almenn tölvukunnátta. Góð íslensku- og enskukunnátta æskileg.
Starfsstöð og skrifstofa varaslökkviliðsstjóra er á Egilsstöðum. Umsóknarfrestur er til og með 25. júní 2019. Umsóknum skal skilað rafrænt til Baldurs Pálssonar, slökkviliðsstjóra Brunavarna á Austurlandi, baldur@brunavarnir.is. Upplýsingar um starfið gefa Baldur Pálsson slökkviliðsstjóri, baldur@brunavarnir.is eða í s. 861 2164 og Haraldur Geir Eðvaldsson varaslökkviliðsstjóri, halli@brunavarnir.is eða í s. 869 4361.

Lesa meira


Næstu viðburðir
Samfélagsþing Snæfellsstofu, Skriðuklaustri 13.-14. apríl 2019
Fljótsdalur til framtíðar-hvert skal stefna
Þorrablót í Fljótsdal 2019
Þorrablót Útbæinga , Végarði , 16.02 2019
Jólavist

Jólavist verður spiluð í Végarði , föstudagskvöldið 28. desember kl. 20:30. Allir velkomnir

 


Fljótsdalur


 

 

 

 
Vefsíðan okkar notar kökur til að bæta þína upplifun af vefnum. Lesa má persónuverndarstefnu Fljótsdalshrepps með því að smella hér.
Í lagi